Ný breiðskífa frá múm

Hljómsveitin múm sendir frá sér sína sjöttu breiðskífu föstudaginn 6. september og verður platan fáanleg í öllum helstu hljómplötuverslunum á CD og LP. Platan heitir Smilewound og inniheldur rafpopplög í knöppum stíl. Það er þýska útgáfan Morr Music sem gefur út, en Smilewound er fyrsta plata múm sem einnig kemur út á kassettu og er það Blood and Biscuit útgáfan sem fjölritar spólurnar. Aukalag á Smilewound er lagið Whistle sem múm hljóðritaði með hinni áströlsku Kylie Minogue. Smilewound hefur fengið góðar viðtökur hjá erlendri tónlistarpressu, en breska tímaritið Mojo gaf henni fjórar stjörnur af fimm og tímaritið Q gaf henni þrjár stjörnur.

Hljómsveitin mun fylgja plötunni eftir með tónleikaferð um Evrópu í haust, en í sumar spilaði múm á nokkrum tónlistarhátíðum og fór meðal annars í hljómleikaferðalag til Asíu. Þau munu sömuleiðis koma fram á íslensku tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í lok október.

 

Comments are closed.