Hymnodiujól

Þessi plata er gerð til að geyma lítið ævintýri sem Eyþór Ingi og Hymnodia hafa átt nokkur undanfarin jól ásamt Láru Sóleyju og Hjörleifi Erni. Jólalög hafa verið tekin og spunnin saman í eina samfellda heild á tónleikum í Akureyrarkirkju. Sumt hefur verið ákveðið fyrir fram en annað orðið til á staðnum og þannig er platan líka. Hér eru ýmis uppátæki sem ekkert okkar vissi að fundið yrði upp á meðan á hljóðritun stóð. Platan er öðrum þræði spunnin á staðnum og hjartað látið ráða för.

Þjóðlegur andi helst í hendur við sígildar hefðir, nútímalega sköpun og framsækna uppátekt og tilraunamennsku. Við finnum myrkur og kulda íslenska torfbæjarins um vetrarsólhvörf en samt líka hlýjuna frá eldinum, ástvinum okkar og boðskapnum um frið og kærleika sem jólin bera með sér. Við finnum fyrir sögu okkar en líka nútíðinni með súru og sætu ásamt voninni sem ber óttann ofurliði. Nýtt er byggt á gömlu en framtíðina reisum við ekki síður á skapandi hugsun og marglitri reynslu.  Slík eru Hymnodiujól.

Comments are closed.