Einar Lövdahl sendir frá sér Tímar án ráða

Tónlistarmaðurinn Einar Lövdahl (22 ára)  sendi á dögunum  frá sér tónlistarfrumburð sinn, sem ber nafnið Tímar án ráða. Platan inniheldur 10 lög, þ.a.m. samnefnt lag sem rataði inn á Vinsældalista Rásar 2 í haust. Lög og textar eru eftir Einar sjálfan og sáu hans nánustu samstarfsmenn og vinir, Halldór Eldjárn (úr Sykri) og Egill Jónsson (úr Porquesí) um upptökustjórn, útsetningar og mestallan hljóðfæraleik. Meginþorri plötunnar er tekinn upp í heimahúsum og hinu svokallaða Stúdíó Mosfellsbæ, hljóðveri Halldórs.

Svo skemmtilega vill til að upptökur plötunnar hófust í fyrstu vikunni í ágúst 2012 og tók því heildarframleiðsla plötunnar nákvæmlega eitt ár. Það er Einar sjálfur sem stendur á bak við útgáfuna.

Áhugavert er frá því að segja að á daginn starfar Einar sem blaðamaður Monitor og hefur þar á bæ t.a.m. tekið forsíðuviðtöl við hátt í 50 tónlistarmenn. Nú hefur hann þó komið sér hinum megin við borðið, ef svo má segja.

Plötuumslagið hannaði kærasta Einars, Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, en ljósmyndina tók Ernir Eyjólfsson. Eins og sjá má í viðhengi sýnir myndin höfund plötunnar í rigningarveðri, en myndin er krítarmynd sem krítuð var á malbik – og liggur höfundurinn því á jörðinni. Þá hefur verið bent á kaldhæðni þess að myndin var tekin í einum rigningarsamasta júlímánuði í manna minnum.

Comments are closed.