Kira Kira gefur út Feathermagnetik

Hljómplatan Feathermagnetik eftir Kira Kira kemur út þriðjudaginn 5. júní og verður fáanleg í öllum helstu plötuverslunum landsins. Kira Kira er hliðarsjálf tónskáldsins og leikstjórans Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur og er hljómplatan hennar þriðja breiðskífa. Feathermagnetik inniheldur 9 tónverk sem flokka má sem tilraunakennda raftónlist. Hljómur hennar er dekkri en á fyrri verkum Kira Kira og segja má að það kveði við nýjan tón í ferli hennar. Platan kemur út á undirmerki þýska útgáfufélagsins Morr Music, Sound of a Handshake. Útgáfutónleikar vegna Feathermagnetik verða svo haldnir í Berlín þann 8. júlí og svo síðar í Reykjavík, en þeir verða auglýstir síðar. Feathermagnetik er fáanleg á CD og er LP plata væntanleg í lok júní.

Kristín Björk Kristjánsdóttir hefur starfað við ýmsa listsköpun undanfarin ár. Hún er einn af stofnendum Tilraunaeldhússins og hefur áður gefið út tvær breiðskífur undir nafninu Kira Kira, plöturnar Skotta og Our Map to the Monster Olympics. Nýverið frumsýndi hún sitt fyrsta leikstjórnarverkefni, heimildamyndina Amma Lo-Fi, en kvikmyndin er samstarfsverkefni hennar, Orra Jónssonar og Ingibjargar Birgisdóttur. Myndin hefur hlotið frábærar viðtökur og hefur verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum undanfarna mánuði, þar á meðal á SXSW, CPH:DOX og MOMA í New York.

Comments are closed.