Útgáfutónleikatvenna My Bubba & Mi, í Reykjavík og á Akureyri

Íslensk-sænski nýkántrí dúettinn My Bubba & Mi mun halda tvenna útgáfutónleika vegna útgáfu plötunnar Wild & You, sem kom út á vegum Kimi Records. Þeir fyrr verða á Græna Hattinum fimmtudaginn 30. ágúst kl. 21 og þeir seinni í Norræna húsinu laugardaginn 1. september kl. 21. Sóley mun koma fram með My Bubba & Mi á báðum tónleikum.

My Bubba & Mi skipa þær Guðbjörg Tómasdóttir og My Larsdotter og var stofnaður árið 2008 í Kaupmannahöfn, en Guðbjörg var þar við nám. Nýverið gáfu þær út plötuna Wild & You en hafa áður gefið út breiðskífuna How It’s Done in Italy. Kimi Records gefur út Wild & You á Íslandi en platan kom út víðsvegar um Evrópu fyrr á árinu á vegum hollenska útgáfufélagsins Beep! Beep! Back up the truck. Samhliða útgáfu Wild & You mun fyrri plata hljómsveitarinnar verða fáanleg í helstu hljómplötuverslunum.

Sóley hefur starfrækt sinn sólóferil undanfarin 3 ár með miklum árangri víða um heim, en hún er einnig þekkt fyrir þátttöku sína í hljómsveitunum Sin Fang og Seabear. Platan hennar, We Sink, kom út árið 2011 og hefur selst í yfir 10 þús eintökum og vinsældum hennar ætlar ekki að linna. Platan þykir mikill gæðagripur og fékk hún meðal annars hin virtu Kraums verðlaun um síðustu jól. Sóley er að koma fram í fyrsta sinn á Akureyri undir eigin nafni, en hún hefur auðvitað leikið þar bæði með Seabear og Sin Fang.

Útgáfutónleikar My Bubba & Mi á Græna Hattinum

Nýkántrí dúettinn My Bubba & Mi mun heimsækja Akureyri fimmtudaginn 30. ágúst ásamt Sóley og halda tónleika á tónleikastaðnum Græna Hattinum. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni útgáfu plötunnar Wild & You og hefjast kl. 21 (hús opnar kl. 20). Miðasala fer fram í Eymundsson og er miðaverð 1.500 kr í forsölu (2.000 kr. við hurð).

Útgáfutónleikar My Bubba & Mi í Norræna húsinu

My Bubba & Mi mun halda sína aðra tónleika vegna útgáfu plötunnar Wild & You í Norræna húsinu laugardaginn 1. september kl. 21. Ásamt My Bubba & Mi mun Sóley koma fram. Miðasala fer fram við hurð og er miðaverð 1.500 kr.

Comments are closed.