Klaufar senda frá sér plötuna Óbyggðir

Klaufar eru nú að gefa út sinn þriðja geisladisk sem ber nafnið „Óbyggðir“.   Hljómsveitina skipa þeir Guðmundur Annas Árnason söngvari, Birgir Nielsen trommuleikari, Friðrik Sturluson bassaleikari, Kristján Grétarsson gítarleikari og Sigurgeir Sigmundsson stálgítarleikari.

Það var í árslok 2011 sem Kristján Hreinsson skáld setti sig í samband við Klaufa og bauð þeim að vinna með sér, en hann bjó þá að góðum skammti af lögum og textum sem hann vildi koma á framfæri.  Úr varð gott samstarf, lög voru valin úr bunkanum og nú hálfu ári seinna lítur diskurinn dagsins ljós.

Kristján semur þar flest lögin, en einnig á Guðmundur Annas söngvari hljómsveitarinnar nokkur lög.  Kristján semur alla textana nema einn, en sá er eftir Jónas Friðrik.

Margir valinkunnir tónlistarmenn aðstoða Klaufa á þessum diski, og má þar nefna Magnús Kjartansson og Brokkkórinn, Þóri Úlfarsson, Stefán Hilmarsson, Eyjólf Krisjánsson og Matthías Stefánsson fiðluleikara.  Selma Björnsdóttir syngur eitt lag og óbyggðahetjan sjálf, Magnús Eiríksson, syngur með í titillaginu.

Tónlistin eru létt og kántrýskotin, ætluð fyrir alþýðuna.  Textarnir óður til íslenska hestins, og íslenskrar náttúru, og auðvitað kemur ástin líka við sögu.

Árið 2006 ákváðu þeir félagar, tónlistarmenn og nágrannar, Guðmundur Annas Árnason. söngvari og gítarleikari, Herbert Viðarsson bassaleikari og Birgir Nielsen trommuleikari að leiða saman hesta sína og stofna hljómsveit til að rækta tónlistarstefnu sem þeim fannst að mætti gera hærra undir höfði hér á landi. Kántrýsveitin Klaufar varð til.  Fengu þeir kumpánar til liðs við sig þá félaga Leif Viðarsson og Magnús Kjartan Eyjólfsson.

Þannig skipuð hélt hljómsveitin á vit ævintýranna, ákvað að taka upp plötu,  og það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur, heldur haldið beint til Mekka kántrýtónlistarinnar, Nashville í Bandaríkjunum.  Þar var tekið upp efni sem endaði síðan á plötunni „Hamingjan er björt“, en sú plata kom út árið 2007 og seldist vel.  Þarna spiluðu með Klaufum færustu hljóðfæraleikarar kántrýbransans, og úr varð skemmtilegur diskur, með lögum eins og „Búkalú“ og „Karlmannsgrey í konuleit“.

Klaufar fengu þarna byr í seglin og ákváðu að taka upp aðra plötu árið 2008 undir sömu formerkjum, þ.e. að taka vinsæl íslensk dægurlög og klæða þau í léttan kántrýbúning, og einnig gera íslenska texta við þekkta bandaríska kántrýslagara.  Úr varð platan „Síðasti mjói kaninn“ og fékk hún góðar viðtökur eins og sú fyrri.   Báðar þessar plötur voru teknar upp í Dark Horse Studio í Nashville, Tennessee, og notaði hljómsveitin tækifærið þarna úti og keypti sér nokkra glæsilega kúrekahatta. Þegar þarna var komið sögu  höfðu Klaufar fengið til liðs við sig stálgítarleikara Íslands, sjálfan Sigurgeir Sigmundsson, en fáir ku leika jafn vel á fetilgítar, eða „Pedal Steel Guitar“ eins og hljóðfærið heitir á frummálinu.   Hljómsveitin spilaði síðan víða um land.

 

Eftir þá törn tóku Klaufar sér  hlé frá spilamennsku, og Leifur, Herbert og Magnús fóru að sinna öðrum verkefnum.  Það var síðan í byrjun árs 2011 sem Birgir, Guðmundur Annas og Sigurgeir ákváðu að endurvekja hljómsveitina og fengu til liðs við sig nýjan félaga.   Í hljómsveitina gengu Friðrik Sturluson bassaleikari úr Sálinni hans Jóns míns, og  Kristján Grétarsson gítarsnillingur, en hann er af mikilli tónlistarætt, sonur Grétars Örvarssonar úr Stjórninni og barnabarn Örvars Kristjánssonar harmonikkuleikara.   Klaufar hófu þegar að skipuleggja nýja landvinninga og fyrsta „giggið“ hjá hinum nýju Klaufum var á Kántrýhátíð á Skagaströnd haustið 2011. Fékk sveitin mikið lof fyrir frammistöðuna þar enda hafa meðlimir sveitarinnar samanlagt áratugareynslu í spilamennsku út um allar trissur, þeir elska séríslenska sveitaballamenningu og vilja endilega halda henni við.  Eftir þessa velheppnuðu kántrýhátíð lá leiðin á SPOT í Kópavogi þar sem slegið var upp alvöru hlöðuballi á malbikinu  í borginni.

Nú eru Klaufar að fylgja eftir þriðja geisladiski sínum, og spila meðal annars á Landsmóti hestamanna í Reykjavík.  Við vonum að framtíðin sé björt, eins og hamingjan.

 

Comments are closed.