Eftir 10 ára þögn kemur The Box Tree út

Næstkomandi föstudag, 21. september, kemur út ný hljómplata Skúla Sverrissonar og Óskars Guðjónssonar. Ber hún nafnið The Box Tree. Þetta er önnur hljómplata þeirra félaga en 10 ár eru liðinn frá því að fyrri plata þeirra, hin goðsagnakennda Eftir þögn kom út. Af þessu tilefni munu þeir Skúli og Óskar flytja tónlist af plötunni í Listasafni Íslands að kvöldi þess sama dags kl. 20.

Skúli og Óskar eru fyrir löngu búnir að skipa sér sess sem á meðal fremstu tónlistarmanna Íslands og þótt víðar væri leitað. Skúli var nýverið settur á lista yfir fremstu jassrafbassaleikara heims af hinu virta tímariti Downbeat en hann hefur um langt árabil búið og starfað í New York auk þess sem hann hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi. Hljómplötur hans, Sería I og Sería II eru án efa á meðal eftirtektarverðustu tónverka síðustu ára á Íslandi.

Óskar er einhver afkastamesti og athyglisverðasti tónlistarmaður sem Ísland á. Auk þess að hafa gefið út fjórar sólóplötur er hann er meðlimur í hljómsveitunum Mezzoforte og ADHD.

Báðir eru þeir margverðlaunaðir á Tónlistarverðlaunum Íslands og má geta þess að saman voru á sínum tíma útnefndir Jazz tónlistarflytjendur ársins 2002 í tenglum við fyrri plötu þeirra.

Upptökum á hljómplötunni stjórnaði Orri Jónsson en hann og Ingibjörg Birgisdóttur hönnuðu einnig einstakt umslag plötunnar.

The Box Tree er fyrsta verk Mengishópsins og marka tónleikarnir upphaf samstarfs Mengis og Listasafns Íslands.

Tónleikar Skúla og Óskars verða sem áður segir í Listasafni Íslands föstudaginn 21. September og er aðgangseyrir 3000 kr. Miðana er hægt að kaupa í afgreiðslu Listasafnsins. Húsið opnar klukkan 20 og tónleikarnir hefjast um 20:20. Boðið verður upp á léttar veitingar að tónleikum loknum auk þess sem hægt verður að kaupa hljómdiskinn á staðnum. Athygli er vakin á því að einungis takmarkað magn miða er í boði þannig að áhugasamir eru hvattir til þess að kaupa miða í forsölu.

Comments are closed.