Cheek Mountain Thief gefur út sína fyrstu breiðskífu

Breiðskífan Cheek Mountain Thief með Cheek Mountain Thief kemur út á vegum Kimi Records  föstudaginn 17. ágúst. Hljómsveitina leiðir breski tónlistarmaðurinn Mike Lindsay (Tunng) en aðrir meðlimir eru íslenskir. Platan inniheldur 10 lög úr smiðju hans og flokkast sem folk tónlist undir vægum sýruáhrifum. Meðal gesta á plötunni má nefna Mugison, Sindra Má Sigfússon (Seabear, Sin Fang), Sigurlaugu Gísladóttur (Mr. Silla, múm) og Bartónar, karlakór Kaffibarsins. Um upptökur sá Mike Lindsay sjálfur en um hljóðblöndun sá Gunnar Tynes (múm). Umslagshönnun var á höndum listamannsins Hörpu Daggar Kjartansdóttur. Platan kemur samtímis í Evrópu á vegum breska útgáfufélagsins Full Time Hobby.

YouTube Preview Image

Á því herrans ári 2010 kom Mike Lindsay hingað til lands til að leika á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves með bresku hljómsveitinni Tunng. Hann kunni ekki við að fara og settist hér að, varð ástfanginn af húsvískri  og býr hér enn. Hann dvaldi löngum í bústaði einum undir Kinnafjöllum við Húsavík og hóf þar að semja lög, hóaði svo nokkra húsvíska tónlistarmenn saman í hljómsveit og bjó til plötuna og hljómsvetina Cheek Mountain Thief.

Hljómsveitina skipa: Mike Lindsay, gítar og söngur; Óskar Andri Ólafsson, gítar og óhljóð; Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla; Birkir Ólafsson, bassi; Gunnar Illugi Sigurðsson, trommur og ásláttur; Leifur Björnsson, píanó, hljóðgervlar og bakraddir.

Haldnir verða þrennir útgáfutónleikar í tilefni af útgáfu plötunnar, í Reykjavík, á Húsavík og úti í Englandi. Verða þeir kynntir betur síðar.

Comments are closed.